*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 24. apríl 2020 10:10

Bankar lækkað hraðar en lífeyrissjóðir

Vextir sem bankarnir bjóða á íbúðalánum hafa lækkað hraðar en lífeyrissjóða á árinu. Lækkun bankaskatts kann að skýra það.

Ritstjórn

Vextir á íbúðalánum hafa lækkað hraðar hjá bönkum en lífeyrissjóðum það sem af er þessu ári samhliða stýrivaxtalækkunum Seðlabankans. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðismálastofnunar (HMS).

Vextir á óverðtryggðum íbúðalánum sem bankarnir bjóða hafa að meðaltali lækkað um um ríflega eitt prósentustig samanborið við 0,6 prósentustig hjá lífeyrissjóðum sé horft á sambærileg lán. 

Hafa verður í huga að bankarnir hafa almennt boðið hagstæðari kjör á þessum lánaflokki en lífeyrissjóðir frá því að lífeyrissjóðir hófu beina innreið sína á húsnæðislánamarkaðinn árið 2015. Vaxtakjör Birtu lífeyrissjóðs eru þó undantekning á því sem stendur.

Bil milli meðaltals óverðtryggðra vaxta með 70% hámarksveðhlutfalli er nú um 4,08% innan bankanna en 4,9% hjá lífeyrissjóðunum.

HMS bendir á að lækkun bankaskattskatts geti verið ein skýring á hvers vegna bilið hafi tekið að breikka. Bankaskattur var lækkaður um tæp 0,06 prósentustig um áramótin. Til stendur að lækka bankaskatt úr 0,318% í 0,145%.

Hins vegar hafa lífeyrissjóðirnir almennt boðið betri vaxtakjör af verðtryggðum lánum. Lægstu verðtryggðu breytilegu vextir lífeyrissjóða voru 3,25% í maí 2017 en eru nú um 1,7%. Bilið á vaxtakjörum sem boðist hafa á verðtryggðum íbúðalánum innan lífeyrissjóðanna og bankanna óx úr 0,4 í 1,27 prósentustig frá maí 2017 og fram í nóvember 2019. Síðan þá hefur bilið þó lækkað niður í 0,6 prósentustig.