Hlutabréfamarkaðir hækkuðu lítillega í Evrópu í dag en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSE 300 vísitalan hækkaði um 0,6% en hafði fyrir hádegi lækkað um tæpt 1%. Flestir markaðir lækkuðu við opnun í morgun en hækkuðu síðan eftir hádegi.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Þannig hækkaði Barclays um 10,9% eftir að hafa birt uppgjör sem var umfram væntingar. Þá hækkaði Deutsche Bank um 6,2%, Unicredit um 5,1% og Commerzbank um 8,5% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan einnig um 0,5%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss hækkaði SMI um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,3%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,7% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,2%.