Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og líkt og greint var frá í morgun voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins og svissneski bankinn Credit Suisse þar fremstur í flokki.

Bankinn lækkaði um 3,3% í dag eftir að svissneskir fjölmiðlar greindu frá því um helgina að bankinn kunni að afskrifa um 5 milljarða dali til viðbóta því sem þegar hefur verið afskrifað. Talsmenn bankans vildu ekkert segja um málið við fjölmiðla í dag.

Þá lækkuðu bréf í öðrum svissneskum banka, UBS um 2,4%, í Lloyds um 2,8, Royal Bank of Scotland lækkaði um 2,1% og Barclays lækkaði um 2%.

Námufyrirtæki lækkuðu einnig en þar er helst um að ræða fyrirtæki á borð við Anglo American sem lækkaði um 3,1%, BHP Billiton sem lækkaði um 2,3% en samkvæmt fréttavef Reuters er talið að sú hækkun sem orðið hefur á hrávörum síðustu daga sé ofmetin í verðmæti fyrirtækja á borð við námufyrirtækin.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,8% í dag og hefur lækkað um 15,4% á árinu að sögn Reuters.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1%. Þá lækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 0,6% en DAX vísitalan í Frankfurt og CAC 40 vísitalan í París lækkuðu um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,8% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,2%.