Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters.

Þá hafði spá um mikið tap bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers einnig mikið að segja að mati viðmælanda Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,3%.

Breskir bankar lækkuðu nokkuð í dag. Þannig lækkaði Royal bank of Scotland um 5%, Barclays um 5,7% og HBOS um 7,2%. Þá lækkaði svissneski bankinn UBS um 3,3%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,8%.

DAX vísitalan í Frankfurt hækkaði hins vegar um 0,2% en í París stóð CAC 40 vísitalan í stað.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,4%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,8% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,4%.