Arion banki, Íslandsbankinn, Landsbankinn, Borgun og Valitor hafa gert sáttir við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar eftirlitsins á samkeppnishölmum á greiðslukortamarkaði. Fyrirtækin viðurkenna að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hafi ekki verið í samræmi við 10. og 12. gr samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

„Fallast fyrirtækin á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla samkeppni. Jafnframt fallast þau á greiðslu sekta, samtals að fjárhæð 1.620 milljónir kr. Mál þetta hófst með kvörtun Kortaþjónustunnar ehf. sem beindist að útgefendum greiðslukorta (Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum) og færsluhirðum (Borgun og Valitor). Taldi Kortaþjónustan að þessir aðilar hefðu gerst brotlegir við samkeppnislög með ýmsum aðgerðum sem fyrirtækið taldi að hefðu hindrað samkeppni á markaðnum. Hinn 8. mars árið 2013 birti Samkeppniseftirlitið aðilum frummat sitt í því skyni að auðvelda þeim að nýta andmælarétt sinn. Í kjölfarið óskuðu bankarnir, Borgun og Valitor, hver um sig, eftir því að heimild samkeppnislaga til að ljúka málum með sátt yrði nýtt. Sáttir þessar leiða til jákvæðra grundvallarbreytinga á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði og munu að mati Samkeppniseftirlitsins verða til verulegra hagsbóta fyrir bæði neytendur og atvinnulífið. Breytingarnar fela m.a. í sér að hámark verður sett á milligjald sem er þóknun sem rennur til bankanna (sem útgefenda greiðslukorta) fyrir þjónustu sem bankar veita söluaðilum (m.a. verslunum) í tengslum við greiðslukortanotkun. Munu breytingarnar í heild leiða til lækkunar frá því sem nú er. Einnig leiða breytingarnar til aukins gagnsæis í gjaldtöku og er ætlað að hafa í för með sér aukna hagræðingu á þessu sviði. Jafnframt munu Valitor og Borgun skilja á milli útgáfuþjónustu og færsluhirðingar, en samrekstur þessara starfsþátta hefur falið í sér samkeppnishindranir gagnvart öðrum keppinautum á greiðslukortamarkaði. Þá er horfið frá því að keppinautar á viðskiptabankamarkaði eigi saman greiðslukortafyrirtæki, en það fyrirkomulag hefur ekki gefist vel í samkeppnislegu tilliti. Samhliða er tryggt að Valitor og Borgun þjónusti aðra en eigendur sína á jafnræðisgrundvelli. Framangreindar sáttir leiða til breytinga á umgjörð fjármálamarkaðar. Það er hins vegar á ábyrgð og forræði viðkomandi banka og greiðslukortafyrirtækja að taka viðskiptaákvarðanir innan þeirrar umgjarðar, á grundvelli heilbrigðrar samkeppni,“ segir í tilkynningunni.