Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst námufyrirtæki auka banka og fjármálafyrirtækja sem leiddu lækkanir dagsins eftir neikvæðar fréttir af tapi bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 0,7% en um tíma hafði vísitalan lækkað um rúmt prósent. Þá hefur vísitalan lækkað um tæp 24% það sem af er ári að sögn Reuters.

Sé tekin dæmi af lækkunum banka í dag þá lækkaði Credit Agricole um 4,8%, Royal Bank of Scotland um 3,6%, Barclays um 5,3% og UBS um 4%.

Viðmælandi Reuters segir að þrátt fyrir að lítil sem engin tengsl séu milli taps Lehman Brothers og fjármálafyrirtækja í Evrópu séu þetta eðlileg viðbrögð fjármálamarkaðarins.

Þá lækkuðu námufyrirtæki nokkuð eins og fyrr segir. Þar má nefna að BHP Billiton, Anglo American, Lonmin, Xstrata og Rio Tinto lækkuðu öll á bilinu 4,5 – 8,8%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,4%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,2% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,9%.

Í Kaupmannhöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,9%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,8% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,2% og var eina vísitalan sem hækkaði í Evrópu í dag.