Hlutabréfamarkaðir hækkuðu nokkuð í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins í þeirri von að skjótar aðgerðir yfirvalda í Bandaríkjunum muni hafa jákvæð áhrif á markaði.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, hækkaði um 3,2% í dag en hefur þó engu að síður lækkað um 2,6% frá áramótum.

Breski bankinn Lloyds hækkaði um 50% eftir að greiningaraðilar í Lundúnum mæltu með kaupum í bankanum. Þá hækkaði Royal Bank of Scotland um 44%, Barclays um 18,9%, BNP Paribas um 20,1% og Deutsche Bank um 22%.

Í Lundúnum hækkað FTSE 100 vísitalan um 2,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 3,4% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 4,5%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 4,1% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,3%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 2%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,4% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,2%.