Breskir bankar töpuðu í gær máli fyrir dómstólum þar í landi varðandi réttmæti yfirdráttargjalda. Á síðu talsmanns neytenda segir að málið kunni að hafa þýðingu fyrir íslenska neytendur.

Í fréttum BBC kom fram að breskir bankar hefðu tapað fyrsta áfanga prófmáls um réttmæti og lögmæti FIT-kostnaðar, þ.e. þegar neytandi (eða annar viðskiptavinur) fer yfir á bankareikningi.

„Þetta eru góðar fréttir því þær auka heldur líkur á úrbótum fyrir íslenska neytendur að þessu leyti þó að niðurstaðan feli aðeins í sér að neytendaeftirlitið í Bretlandi (Office for Fair Trade, OFT) sé bært til þess að úrskurða um réttmæti gjaldanna; niðurstaðan felur ekki í sér að gjöldin séu óréttmæt. Sú nálgun bendir til þess OFT hafi nokkuð rúmar lagaheimilidir," segir á heimasíðu talsmanns neytenda.