Bandarískir bankar hafa nú þegar hafið undirbúning að áætlunum um flutninga frá London til Írlands vegna mögulegrar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu.

Samkvæmt heimildum Financial Times eru bankarnir Bank of America, Citigroup og Morgan Stanley að íhuga flutning til Írlands, sem er talin góð staðsetning ef þeir þurfa að flytja frá Bretlandi til að sinna evrópskum viðskiptum. Einn bankanna hefur nú þegar ákveðið að flytja einhverja starfsemi bankans til Írlands. Áætlanir eru þó á byrjunarstigi.

Margir asískir og bandarískir bankar eru með starfsemi sína í Bretlandi sem veitir þeim aðgang að markaði 28 evrópskra ríkja. Hins vegar er talið ólíklegt að ef Bretland geti ennþá veitt þennan aðgang ef það segir sig úr Evrópusambandinu.

Um 250 erlendir bankar eru með starfsem í Bretlandi og skilaði viðskiptaþjónusta hagnaði sem nam 71 milljarði dollara, eða sem nemur 8200 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þriðjungur hagnaðarins kom vegna viðskipta við Evrópusambandsríki.

Margir telja að ef Bretland segi skilið við Evrópusambandið munu Frankfúrt og París verða vinsælir höfuðstaðir fyrir bandaríska banka í Evrópu. Hins vegar býður Írland bönkunum marga kosti meðal annars lága fyrirtækjaskatta, enskumælandi íbúa, enskt réttarkerfi auk aðildar í Evrópusambandinu.