Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta þann 16. júní síðastliðinn. Dómur Hæstaréttar sagði þó ekki til um við hvaða vexti miða ætti uppgjör lána sem áður voru gengistryggð. Lántakendur sem tóku slík lán telja að miða eigi við samningsvexti, sem miðuðust oftast við LIBOR-millibankavexti með föstu 3% álagi. Þau kjör voru mun betri en öll kjör á lánum í íslenskum krónum, enda gengistryggingin forsenda þess að vextir lánanna voru lágir.

FME, Seðlabanki Íslands og margir ráðherrar telja að gera eigi lánin upp miðað við lægstu mögulega vexti Seðlabankans, annað hvort verðtryggða eða óverðtryggða. Tilmæli þess efnis voru gefin út í síðustu viku en þau eru þó ekki bindandi. Í vinnugögnum stjórnvalda, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram sú skoðun að fjármálastofnun sem byði upp á óverðtryggð lán í íslenskum krónum með LIBOR-vöxtum væri í raun að gefa peninga.

Forsenda þess að lán sé á slíkum vöxtum sé gengistrygging. Ef sú forsenda brestur eigi vaxtaforsendan einnig að bresta. Þessu eru áður gengistryggðir lántakendur ósammála og dómstólar munu skera úr um þetta deilumál í haust.

-Nánar í Viðskiptablaðinu