Haukur Arnar Birgisson, hæstaréttarlögmaður telur að heppilegra væri að láta nýtt bankaráð Landsbankans eða Bankasýslu ríkisins taka ákvörðun um málshöfðun vegna Borgunarmálsins í stað núverandi bankaráðs. Greint er frá þessu í Markaði Fréttablaðsins í dag.

Eins og tíðrætt hefur verið í fjölmiðlum þá seldi Landsbankinn 31% hlut í Borgun en miklar deilur hafa verið um söluverðið í kjölfar þess að tilkynnt var um greiðslur til Borgunar vegna væntanlegrar yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe.

Fimm af sjö meðlimum bankaráðs sögðu af sér eftir að bankasýslan birti niðurstöðu sína á rannsókn á málinu. Haukur segir að það verði ekki annað skilið en að bankaráðið telji að réttilega hafi verið staðið að viðskiptunum. Hagsmunir stjórnenda bankans og hluthafa fari því ekki endilega saman og því er það óheppilegt að bankaráðið taki ákvörðun um málshöfðun. Hann segir því að það megi færa sterk rök fyrir því að bankaráðið sé vanhæft til að fjalla um málið og setja það í farveg. Þar vísar hann til 72. gr. laga um hlutafélög, en þar segir:

Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þeirra, um málshöfðun gegn þeim eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik.

Haukur segir að í þessu tilfelli kunni hagsmunir að rekast á.