Gunnar Helgi Hálfdanarson, fráfarandi bankaráðsformaður Landsbankans, var mjög gagnrýninn á Bankasýsluna í ræðu sinni á aðalfundi bankans í dag, eða öllu heldur á nýjan forstjóra Bankasýslunnar, Jón Gunnar Jónsson, þótt hann hafi ekki verið nefndur á nafn í ræðunni.

Sagði Gunnar Helgi að samstarf bankaráðsins við Bankasýsluna hafi verið mjög gott fyrstu tvö árin sem hann var í bankaráði bankans og sagði fyrrverandi forstjóra Bankasýslunnar geta vottað um það. Breyting hafi hins vegar orðið til hins verra þegar nýr forstjóri tók við.

Greinilegt var að Gunnari Helga var ekki auðvelt að koma orðum að því sem hann þurfti að segja. Eins var greinilegt að hann vandaði mjög orðaval. Aðdragandi gagnrýninnar var langur og talaði hann lengi um markmið Bankasýslunnar samkvæmt lögum og það hvernig sambandi hluthafa og stjórnar fyrirtækis eigi að vera háttað í einkafyrirtæki. Markmiðið hafi átt að vera það að þótt ríkið væri stór hluthafi hafi átt að forðast pólitísk afskipti af fyrirtækinu með því m.a. að setja á stofn Bankasýsluna, sem færi með hlutinn fyrir hönd ríkisins. Samband bankaráðs við Bankasýsluna ætti því að vera með svipuðum hætti og samband stjórna annarra fyrirtækja við hluthafa sína. Sagði hann mikilvægt að þótt nær allt hlutafé bankans væri í eigu ríkisins ætti ekki að víkja frá þessari meginreglu. Tilmæli Bankasýslunnar eigi að vera stefnumótandi og opinber, en rekstur bankans eigi að vera á höndum bankaráðs og framkvæmdastjórnar.

Í raun væri það mjög mikilvægt fyrir framtíð bankans að hugsanlegir fjárfestar í bankanum geti treyst því að óhætt sé að fjárfesta í banka sem sé í meirihlutaeigu ríkisins.

Sagði hann að bankaráðinu hafi fundist á síðasta starfsári eins og Bankasýslan væri að fara inn á starfssvið ráðsins og að versnandi samskipti við Bankasýsluna hafi dregið úr skilvirkni bankaráðsins eftir því sem á leið. Endurskoða þurfi þessa þróun þannig að vald og ábyrgð bankaráðsins verði ekki viðskila. Undir fyrrverandi forstjóra hafi bankaráðið aldrei orðið vart við að reynt væri að hafa áhrif á starfsemi bankans. Á síðasta ári hafi orðið breyting þar á. Að mati Gunnars Helga má m.a. rekja viðsnúning bankans til hins betra frá hruni til þess að bankaráðið hafi aldrei þurft að efast um umboð sitt, en það hafi breyst undir það síðasta. Reynslan hafi kennt honum að sá stjórnarmaður sem efist um stöðu sína eða valdsvið geti ekki miðlað áhrifamætti til starfsfólks með tilhlýðilegum hætti.

Hann sagði að hjá Bankasýslunni starfi samviskusamt og kappsfullt fólk sem vilji standa vaktina vel, enda aldrei að vita nema bankaráð villist af leið og að FME sofni á verðinum, en hann ítrekaði það að sú þróun sem orðið hefði á síðasta starfsári væri ekki til góðs.