Ekki tókst að kjósa í nýtt bankaráð Landsbankans á aðalfundi bankans í Hörpu í gær og var kosningu frestað til 22. apríl. Ástæða frestunarinnar er sú að Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar,  dró framboð sitt til baka í gær eftir að borgaryfirvöld sögðu honum að seta í bankaráði færi ekki saman við starf hans sem fjármálastjóri borgarinnar. Þar sem framboðsfrestur var runninn út þurfti að fresta kosningunum. Þetta kemur fram  í Fréttablaðinu í dag.

Í viðtali við Fréttablaðið sagði Birgir að yfirmenn hans töldu það ekki fara saman við starf hans sem fjármálastjóri borgarinnar og hafi honum því fundist eðlilegast að velja borgina.

Þau Berglind Svavarsdóttir, Danielle Pamela Neben, Helga Björk Eiríksdóttir, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson, Magnús Pétursson og Einar Þór Bjarnason eru tilnefnd, en Einar kemur í stað Birgis. Lagt er til að Helga verði formaður ráðsins.

Tryggvi Pálsson, fráfarandi formaður bankaráðs, og Steinþór Pálsson bankastjóri voru að mestu ánægðir með liðið ár á aðalfundinum í gær en bankinn skilaði 36,5 milljarða króna hagnaði og sagði Tryggvi árið besta rekstarár frá stofnun bankans er hann steig í ræðustól.

Tryggvi sagði bankaráðið iðraðist hvernig staðið hafi verið að sölu bankans á hlut hans í Borgun. „Við iðrumst þess og hefðum betur getað staðið öðruvísi að sölunni og haft hana í opnu ferli árið 2014. Við hefðum betur áttað okkur á því að þarna væri happdrættisvinningur sem gæti fallið Borgun í skaut,“ sagði Tryggvi og vísaði til þess að Borgun mun hagnast mikið vegna kaupa Visa Inc á Visa Europe.