Ræningjarnir sem frömdu stærsta bankarán í sögu Bangladess lögðu mikið á sig til að komast inn í öryggishólf bankans í febrúar á þessu ári. Afraksturinn, 169 milljónir bangladeskra raka, andvirði um 270 milljóna króna, bliknar vissulega í samanburði við stærstu bankarán sögunnar, en þegar haft er í huga að mánaðarlaun í Bangladess geta verið um 16.000 krónur þá setur það fjárhæðina í ákveðið samhengi.

Mennirnir tveir, Sohel Rana og Idris Mian, hófu undirbúning ránsins einu og hálfu ári áður en það var framið. Þeir leigðu hús sem var við hlið bankans Sonali, um 130 kílómetra norðan við höfuðborgina Dakka, og tóku sér svo drjúgan tíma í að grafa göng úr húsinu inn í öryggishólf bankans, um tíu metra leið.

Rana gróf göngin aðeins á vinnutíma, svo umferðarhávaði yfirgnæfði öll hljóð sem af greftrinum stöfuðu. Hann gróf í viku í senn og geymdi moldina í íbúðinni, en flutti hana svo út úr húsinu í fötum yfir lengri tíma. Útskýrir það af hverju það tók svo langan tíma að grafa ekki lengri göng. Rana hóf einnig ástarsamband með starfsmanni bankans til að afla sér frekari upplýsinga um aðstæður í bankanum.

Nánar er fjallað um málið í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .