Þýsk stjórnvöld hvetja stærstu hagkerfi heims til þess að taka höndum saman um reglur og aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir geti orðið svo stórar að fall þeirra skapi allsherjar glundroða á fjármálamörkuðum.

Skilaboð þess efnis að koma verði í veg fyrir að fjármálafyrirtæki geti orðið svo stór að þau ógni hagsmunum einstakra hagkerfa koma frá Berlín í aðdraganda fundar tuttugu helstu iðnríkja heims. Fundurinn fer fram í Pittsburgh í Bandaríkjunum síðar í mánuðinum.

Í bréfi sem Peer Steinbrück, fjármálaráðherra Þýskalands, hefur sent til starfsbræðra sinna í helstu hagkerfum heims koma fram hugmyndir um setningu alþjóðlegra reglna sem hægt væri að styðjast við þegar kæmi að gjaldþroti og gjaldþrotameðferð stórrar fjármálastofnunar sem starfar þvert á landamæri.

Eins og fram kemur í umfjöllun breska blaðsins Financial Times þá er um að ræða fyrstu markverðu tillögur stjórnvalds vegna þess vanda sem kom upp þegar bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers riðaði til falls fyrir ári.

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu.