Áhugi útlendinga á Íslandi hefur alls ekki rýrnað í réttum takti við rýrnun eigna útrásarvíkinganna. Þannig hefur Dagens Næringsliv, eitt af stærri dagblöðum og langstærsta viðskiptablað Noregs, ekki sparað blaðsíðurnar undir umfjöllun um ris og fall viðskiptaveldis Jóns Ásgeirs Jóhannesssonar undir fyrirsögninni: Bankaræningjarnir. Blaðið leggur tíu heilsíður með fjölda mynda frá velmektardögum þegar kamapvínið flóði og ferðast var í einkaþotum landa í milli.

Dagens Næringsliv sendi tvo blaðamenn til Íslands til þess að vinna að fréttinni en ræddu við fjölda manns og þá einnig við þá sem flokka mætti sem andstæðinga Jóns Ásgeirs, s.s. Jónínu Benediktsdóttur og Jón Gerald Sullenberger.

"Grasflötin hefur ekki verið slegin. Dagblöðunum hefur verið troðið inn um bréfalúguna og liggja dreifð í innganginum. Á veggnum á móti horfir eftirlitsmyndavélin niður. Það er ekkert nafn á dyrabjöllunninni en það er hérna, í húsi konu hans í mesta tískuhverfi Reykjavíkur 101, sem Jón Ásgeir Jóhannesson býr. Þessi fyrrum bankaeigandi er ekki heima."

Þannig hefst úttekt norsku blaðamannanna  en í henni  er einnig rætt um viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs eða klíkunnar sem haldið er fram að hafi rænt Glitni innan frá, m.a. Pálmi Haraldsson, Hannes Smárson og forstjóra Glitnis Lárus Welding.

Efnislega kemur fátt fram sem ekki hefur verið sagt frá áður í íslenskum fjölmiðlum. Frásögnin minnir helst á spennusögu þar sem margar persónur og leikendur koma til sögunnar og vettvangi er lýst. Það er greinilegt að blaðamennirnir hafa mikið svigrúm til stílbragða eins og byrjunin gefur til kynna í umfjöllun sinni.

Myndir af öllum opnunum er hægt að skoða hér að ofan með því að ýta á tengla 1-5 undir aðalmyndinni.