Fjármálaeftirlitið (FME) hefur samþykkt afsal starfsleyfa Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankans hf. til reksturs markaðstorgs fjármálagerninga. Með samþykkinu fellur niður heimild bankanna til að stunda starfsemina á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki.

Í frétt á vef FME kemur fram að eftirlitið hafi samþykkt afsal leyfanna í kjölfar þess að stjórnir bankanna samþykktu með ótvíræðum hætti að afsala sér þeim.

Markaðstorg fjármálagerninga er fyrirbæri sem fyrst kom inn í íslenska löggjöf með innleiðingu MIFID-regluverksins frá Evrópusambandinu, en eina slíka torgið sem starfrækt er á Íslandi er First North hlutabréfamarkaður Kauphallarinnar. Bankarnir höfðu allir leyfi til að reka slík markaðstorg, en höfðu ekki hug á að gera það og ákváðu því að afsala sér leyfunum.