*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 18. maí 2019 07:28

Bankarnir búi sig undir vanskil

Bankakerfið er að ganga í gegnum fyrsta samdráttarskeiðið frá því að það komst á ný í meirihlutaeigu ríkisins ef hagspár rætast.

Ingvar Haraldsson
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Stefán Pétursson, bankastjóri Arion banka.
vb.is

Áhyggjuraddir eru í bankakerfinu um að afkoman muni versna samhliða kólnun í hagkerfinu. Í fjárfestakynningum Íslandsbanka og Arion banka vegna síðustu uppgjöra bankans er sagt að áskorun verði að ná markmiðum um arðsemi eftir því sem hægi á hagvexti. Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna dróst saman um 14% á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra og nam 10,4 milljörðum króna. 

Búi sig undir vanskil í ferðaþjónustu 

Helst eru áhyggjur af því hvernig lánum til ferðaþjónustunnar mun reiða af eftir gjaldþrot Wow air og kyrrsetningu Boeing 737 Max flugvéla Icelandair. Útlán til ferðaþjónustunnar hafa nær tvöfaldast frá árinu 2015. Lán bankanna til ferðaþjónustunnar námu 228 milljörðum um síðustu áramót og hafa hækkað um tæplega 100 milljarða á síðustu þremur árum. Útlánavöxturinn til ferðaþjónustunnar nam 23% árið 2017 en 10% á síðasta ári. Bent er á í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í apríl að verulega hafi hægst á nýjum útlánum til ferðaþjónustunnar um mitt árið 2018. Seðlabankinn segir að engu síður þurfi bankarnir að vera undirbúnir að vanskil í ferðaþjónustunni geti aukist. 

Ríkið á mikið undir 

Ljóst er að ríkissjóður á mikið undir að vel takist til enda á ríkið Landsbankann og Íslandsbanka og fær líklega um þriðjung af 20% hlut Kaupþings í Arion banka, vegna stöðugleikaframlaga Kaupþings, sem áætla má að verði nálægt 10 milljörðum króna miðað við núverandi markaðsvirði bankans. Þá er samanlagt eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans 419 milljarðar króna. Ríkisstjórnin hefur sett sér stefnu um að byrja að losa hluti í bönkunum þegar rétt tækifæri gefst en miklu munar um hve mikið fæst fyrir þá. Verði bankarnir til dæmis seldir miðað við 0,6 krónur á eigið fé, sem var neðra verðbil í útboði við skráningu Arion banka, fást 250 milljarðar fyrir Íslandsbanka og Landsbankann miðað við núverandi eiginfjárstöðu þeirra. Verði miðað við gengið 0,8 fást hins vegar ríflega 330 milljarðar króna eða 80 milljörðum króna meira. 

Arðsemin undir markmiði 

Arðsemi bankanna hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Í ritinu Fjármálastöðugleiki er bent á að arðsemi bankanna í fyrra hafi einungis verið einu prósentustigi hærri en ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til 1-2 ára. Arðsemi eigin fjár bankanna nam 6,1% á síðasta ári sem er 1,5 prósentustigum minna en árið 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: bankarnir