Stóru bankarnir þrír, Íslandsbanki, Nýja Kaupþing og Landsbankinn auglýsa allir eftir starfsfólki í stjórnunarstöður eða sérfræðistörf um þessar mundir.

Af störfum af þessum toga auglýsir Nýja Kaupþing eftir framkvæmdastjóra lögfræðisviðs, en Helgi Sigurðsson yfirlögfræðingur sagði upp störfum í lok júní. Nýja Kaupþing auglýsir einnig laust starf viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði, með þekkingu á fasteignamarkaðnum. Íslandsbanki auglýsir eftir hugbúnaðarsérfræðingi og segir ástæðuna vera aukin verkefni.

Þá auglýsir Landsbankinn, fyrir hönd dótturfélags síns Regins ehf., eftir bæði verkefnastjóra og fjármálastjóra. Reginn er félag sem annast umsýslu og rekstur fasteigna og fasteignafélaga sem bankinn kann að eignast við fullnustuaðgerðir.

Eftirspurn eftir lögfræðingum

Töluverð eftirspurn virðist einnig um þessar mundir eftir lögfræðingum og virðist sem eftirspurn eftir þeirri menntun hafi aukist í kjölfar hrunsins. Lögfræðistofur, bankar og opinberir aðilar auglýsa nú eftir lögfræðingum.

Auk þess sem kom fram hér að ofan má nefna að Tollstjórinn auglýsir eftir lögfræðingi á innheimtusviði og Fjármálaeftirlitið auglýsir bæði eftir yfirlögfræðingi og almennum lögfræðingum.