Hlutdeild innlánsstofnana af nýjum íbúðalánum var í nóvember 2011 um 65%. Fyrir tímabilið janúar til nóvember 2011 var hlutfallið um 27%. Fram á mitt síðasta ár sátu Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir nánast einir að nýjum íbúðalánum allt frá hruni. Þessi þróun hefur snúist við á síðustu mánuðum, segir í Markaðspunkti greiningardeildar Arion banka.

Heildarfjárhæð nýrra útlána síðasta árs nam um 42 milljörðum króna. Það er um þriðjungur af þeim útlánum sem voru veitt árið 2006 og 2007, þegar árleg útlán námu um 120 milljörðum. Greiningardeild segir því liggja fyrir að þrátt fyrir að hlutdeild innlánsstofnana sé farin að nálgast svipaða stærð og í upphafi árs 2006, þá eru ný útlán í kerfinu í heild mun lægri.

Jákvætt fyrir bankakerfið

Bent er á í Markaðspunktum að útlánasafn íslensku viðskiptabankanna sé nokkuð frábrugðið safni erlendra banka. Meginuppistaða útlánasafns íslensku bankanna sé fyrirtækjalán, en þau eru í dag um 70% af innlendum útlánum. Hjá flestum erlendum bönkum séu lán til einstaklinga fyrirferðameiri en fyrirtækjalánin, þar sem þau eru almennt talin öruggari.

Því hafa aukin húsnæðislán í för með sér að efnahagsreikningur bankanna verður líkari því sem tíðkast erlendis, gæði útlánasafnsins aukast og áhættudreifing einnig. Það sé jákvætt fyrir rekstur bankanna og íslenska bankakerfisins.

„Áhætta innlánsstofnana liggur einna helst í því að í einhverjum tilfellum hafa bankarnir ekki eytt út vaxtaáhættu sem fylgir löngum fastvaxtalánum með útgáfu samsvarandi skuldabréfum. Frekari útgáfa sérvarinna skuldabréfa mun þó að öllum líkindum draga úr þeirri áhættu. Sömuleiðis má segja að með auknum útlánum innlánsstofnana dregur úr beinni ábyrgð skattgreiðenda þar sem efnahagsreikningur Íbúðalánasjóðs verður minni en ella,“ segir greiningardeild Arion.