Að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra þarf að gera margvíslegar breytingar og lagfæringar á íbúðalánakerfinu hér á landi, meðal annars vegna nýlegrar kæru frá ESA og þarfar á að bæta félagslegt hlutverk sjóðsins. Hún segir þó að hlutur bankanna sé orðinn stór og því ábyrgð þeirra mikil. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Jóhönnu í Viðskiptablaðinu í dag.

"Það er líklegt að fara þurfi út í einhverskonar aðgerðir sem draga úr eða breyta ríkisábyrgð á almennum húsnæðislánum. Hvað varðar gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá tel ég þá hengja bakara fyrir smið með því að kenna Íbúðalánsjóði um óstöðugleikann. Ég hef oft undrað mig á því hversvegna þeir beina ekki spjótunum að bönkunum í ljósi þess að þeir hafa verið mun stórtækari í utlánum en Íbúðalánasjóður. Bankarnir hafa einnig hunsað tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að draga úr ýmiskonar samkeppnishamlandi aðgerðum sem þeir hafa staðið fyrir eins og og samtvinnun lána og annarra viðskipta. Allar kröfurnar eru alltaf gerðar á Íbúðalánasjóð en það verður líka að gera kröfur til bankanna. Þeir geta ekki hagað sér eins og ríki í ríkinu. Bankarnir bera mikla ábyrgð á þenslunni og þeir verða að koma með okkur í það verkefni að minnka hana," segir Jóhanna í viðtalinu.

Félagsmálaráðherra telur að það þurfi að fara út í einhverjar breytingar á sjóðnum vegna þeirra krafna sem ESA gerir. "Við gætum þurft að breyta þeirri ríkisábyrgð sem sjóðurinn nýtur núna til að jafna samkeppnisstöðu milli aðila á markaði. Bankarnir hafa samt mun sterkari stöðu t.d. varðandi hámarkslán og veðsetningu eigna. Íbúðalánasjóður lánar fyrst og fremst þeim sem eru að kaupa sér ódýrar eignir."

Félagsmálaráðherra hafnar því hins vegar að það þurfi að koma til stefnubreyting, nóg sé að efla félagslegt hlutverk sjóðsins. "Félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs hefur verið lagt til hliðar á síðustu árum og það þarf að virkja aftur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera eina hlutverk hans, þó þungamiðjan eigi að liggja þar."

Í viðtalinu segir Jóhanna að vandinn sé sífellt að aukast vegna síhækkandi húsnæðisverðs. "Fólk sem er t.d. með 150.000 krónur á mánuði og þarf að eyða tveimur þriðju hlutum tekna sinna í leigu getur samfélagið einfaldlega ekki skilið eftir á köldum klaka. Velferðin hér á landi á ekki bara að vera fyrir suma heldur alla."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.