Samhliða því að viðskipti með hlutabréf jukust um 45,8% á árinu 2012 frá fyrra ári á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar, Nasdaq OMX Iceland, þá minnkaði hlutdeild Landsbankans úr því að vera 65% í 30,4%. Minni hlutdeild bankans skýrist ekki einungis af því að aukin viðskipti á markaði hafi farið til annarra aðila því heildarviðskipti bankans með hlutabréf lækkuðu úr rúmum 78 milljörðum í 53 milljarða eða um 31,8%. Bankinn er þó enn stærsti aðilinn á markaði með miðlun hlutabréfa.

Athygli vekur að þrátt fyrir mikla aukningu í viðskiptum með hlutabréf á árinu 2012 fer sú aukning nánast alfarið til fjögurra fjármálafyrirtækja. Á markaðnum með miðlun hlutabréfa voru það Íslandsbanki, Arion banki, MP banki og Straumur fjárfestingarbanki sem náðu að sækja til sín aukin viðskipti. Íslandsbanki bætti við sig 31 milljarði króna, Arion banki 21 milljarði, MP banki 14 milljörðum og Straumur 16 milljörðum af veltu.

Á sama tíma minnkuðu viðskipti annarra smærri fjármálafyrirtækja um 3 milljarða eða um rúm 25% á milli ára og er velta smærri fjármálafyrirtækja nú um 5,45% af markaðnum miðað við 10,6% árið áður. Heildarviðskipti á aðalmarkaði með hlutabréf jukust um 55 milljarða á milli ára og voru tæpir 176 milljarðar árið 2012 en taka ber fram að viðskipti eru tvítalin í yfirliti sem Viðskiptablaðið fékk afhent frá kauphöllinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.