*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 14. apríl 2021 09:39

Bankarnir blómstra þrátt fyrir Covid

Skuldavandi gæti blasað við hjá stórum hluta ferðaþjónustunnar. Kostnaðarhlutfall bankanna undir 50% í fyrsta sinn síðan 2015.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, er formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Aðsend mynd

Í nýútkomnu riti fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleika, segir að aðgerðir Seðlabankans og viðbrögð stjórnvalda við farsóttinni hafa stutt kröftuglega við heimili og fyrirtæki. Tekist hafi að varðveita kaupmátt almennings. Atvinnuleysi hafi þó aukist mikið og hafi verið 11,5% í febrúar sl. samanborið við 5,0% ári áður. Störfum hafi fækkað í nær öllum atvinnugreinum en þó sýnu mest í ferðaþjónustu og öðrum greinum þar sem sóttvarnaraðgerðir hafa takmarkað starfsemi. Viðbúið sé að mikið atvinnuleysi vari meðan áhrifa farsóttarinnar gæti.

Bent er á að miklar takmarkanir séu enn á ferðum milli landa. Því hafi nær algjört tekjufall orðið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í á annað ár. 

„Vaxandi útbreiðsla bólusetningar gefur tilefni til aukinnar bjartsýni en ekki sér enn fyrir endann á erfiðleikum í greininni. Skuldir ferðaþjónustufyrirtækja hafa aukist talsvert á síðustu tólf mánuðum, að stórum hluta vegna frestaðra afborgana og vaxtagreiðslna auk nýrra stuðnings- og brúarlána. Í lok síðasta árs voru útlán til ferðaþjónustu um 10% af útlánum stóru bankanna þriggja til viðskiptavina. Ef ekki rofar til gæti greiðsluvandi ferðaþjónustufyrirtækja hæglega breyst í skuldavanda hjá stórum hluta greinarinnar,“ segir í ritinu.

Áhrif farsóttarinnar á efnahagsreikninga fjármálafyrirtækja birtist fyrst og fremst í aukinni virðisrýrnun, auknum vanskilum og hærra hlutfalli lána í frystingu. 

„Á síðasta ári buðu fjármálafyrirtæki upp á tímabundið greiðsluhlé, sem náði á tímabili til um fimmtungs útlána til fyrirtækja. Áframhaldandi greiðslufrestur er á formi frystingar. Í lok febrúar voru tæplega 17% fyrirtækjaútlána í frystingu samanborið við um 3,5% ári áður, að langmestu leyti í ferðaþjónustu og annarri þjónustustarfsemi,“ segir í Fjármálastöðugleika.

Þá beinir fjármálastöðugleikanefnd sjónum að fasteignamarkaðnum. Vaxtalækkanir hafi fært mikið líf í fasteignamarkaðinn. Velta á höfuðborgarsvæðinu á seinni hluta síðasta árs hafi aukist um 42% á milli ára og kaupsamningum fjölgað um 32%. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins sé veltan helmingi meiri en í sömu mánuðum ári áður. Þrátt fyrir aukna veltu hafi verðhækkanir verið nokkuð hóflegar. Í febrúar hafi raunverð hækkað um 3,1% á síðustu 12 mánuðum. Metfjöldi nýrra íbúða hafi komið inn á markaðinn á síðasta ári en íbúðum í byggingu hafi nú fækkað verulega.

Meiri hagnaður bankanna þrátt fyrir þrengingar

„Þrátt fyrir að verulega hafi þrengt að bönkunum á síðasta ári, bæði vegna aukinnar virðisrýrnunar og minni vaxtamunar, var hagnaður þeirra heldur meiri en á árinu 2019. Efnahagsreikningur þeirra hefur stækkað sem kemur meðal annars fram í aukningu í vaxtaberandi eignum og styður það við vaxtatekjur þeirra þrátt fyrir minni vaxtamun. Aðhald í rekstri skilaði sér einnig í lækkun rekstrarkostnaðar um tæp 10% að raunvirði á síðasta ári. Kostnaðarhlutfall bankanna var þá undir 50% í fyrsta skipti síðan árið 2015,“ segir í riti fjármálastöðugleikanefndar.

Viðbrögð Seðlabankans við farsóttinni hafi stutt við lausafjárstöðu bankanna. Í lok febrúar sl. hafi bankarnir haft til ráðstöfunar 234 milljarða króna umfram lágmarks lausafjárkröfu Seðlabankans og sú fjárhæð hafi hækkað um 56 milljarða króna á sl. 12 mánuðum. 

„Vaxtaálag á erlendar markaðsskuldabréfaútgáfur bankanna er nú svipað og fyrir útbreiðslu farsóttarinnar. Bankarnir hafa nýtt sér það til endurfjármögnunar. Greitt aðgengi þeirra að erlendum lánsfjármörkuðum endurspeglar traust á innlenda fjármálakerfinu.“