*

föstudagur, 10. apríl 2020
Innlent 28. september 2018 11:45

Bankarnir borga 30 milljarða í skatta

Stóru bankarnir þrír greiða samanlagt 30 milljarða í opinber gjöld á árinu. Tryggingagjald er helmingur allrar álagningar.

Ritstjórn
Stóru bankarnir þrír greiða samtals 16% af allri opinberri álagningu á lögaðila í ár.

Stóru bankarnir þrír eru stærstu skattgreiðendur í ár, að Ríkissjóði sjálfum frátöldum, en álagning þeirra nemur samanlagt 30 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra.

Landsbankinn var efstur meðal bankanna með 11,6 milljarða, þar á eftir Arion banki með 9,4 milljarða, og loks íslandsbanki með 9,1 milljarð. Næst kemur Reykjavíkurborg með 3,7 milljarða, Isavia með 1,7 milljarða, og Landsvirkjun með tæpa 1,7.

Næsti lögaðili í einkaeigu á eftir bönkunum er Norðurál Grundartangi með 1,67 milljarða, og þar á eftir koma Icelandair með 1,59 milljarða og Bláa Lónið með 1,12 milljarða.

Alls voru 187 milljarðar króna lagðir á lögaðila í opinber gjöld, sem er 0,4% hækkun milli ára. Tryggingagjald eitt og sér skilaði helmingi gjaldanna, 93 milljörðum króna, sem er tæp 7% hækkun milli ára, og var því stærsti einstaki liðurinn. Tekjuskattur lögaðila dróst hinsvegar saman um 7%, og skilaði 75 milljörðum.

Þá skilaði sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, tæpum 10 milljörðum og jókst um 8% milli ára, og fjársýsluskattar tæpum 7 milljörðum og jukust um 4% milli ára. Fjármagnstekjuskattur skilaði 1,5 milljörðum og dróst saman um tæp 19%.

Fjöldi lögaðila á skattgrunnskrá við lok álagningar var 61.027, en þar af voru 44.102 skattskyld félög og sameignarfélög, og 16.925 lögaðilar undanþegnir tekjuskatti.

Stikkorð: Skattamál