Bönkunum er ekkert að vanbúnaði að hefja útreikning gengistryggðra lána byggðan á dómi Hæstaréttar frá því í gær segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann segir að dómurinn taki á ýmsum óvissuþáttum sem greiði fyrir úrlausn ýmissa mála. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is

Fundað var í dag hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í dag vegna gengislánadómsins sem féll í Hæstarétti í gær. Umboðsmaður skuldara, fulltrúar bankanna, Fjármálaeftirlitsins og sérfræðingar gengu á fund nefndarinnar auk fleiri aðila.

„Það sem skiptir mestu máli er að Hæstiréttur tekur af tvímæli um að lögaðilar falla undir dóminn, að minnsta kosti lögaðilar eins og  Borgarbyggð og smærri aðilar. Borgarbyggð er nú býsna stór aðili með yfir tveggja milljarða veltu og yfir 200 manna starfslið,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í frétt Rúv.

„Hann tekur líka af tvímæli um að fólk sem greiddi afborganir á ekki að fá bakreikning vegna vaxta, og hvernig eigi að fara með greiðslurnar sem inntar voru af hendi áður en til endurútreiknings kom. Ég tel að þetta nægi bönkunum til að hefja þegar vinnu að endurútreikningi hinna gengistryggðu lána sem að dæmd hafa verið ólögmæt.“