Hartnær 140 félög í óskyldri starfsemi eru í eigu íslenskra banka og dæmi eru um að bankar eða dótturfélög þeirra hafi átt fyrirtæki í meira en 30 mánuði. Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins (FME) við fyrirspurn Félags atvinnurekenda (FA) sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag.

Í fréttini kemur fram að dæmi séu um að bankar eða dótturfélög þeirra hafi átt fyrirtæki í meira en 30 mánuði en samkvæmt lögum mega þeir einungis eiga fyrirtæki í 12 mánuði án þess að leita undanþágu hjá FME. Í svari FME kemur fram að sótt hafi verið um framlengingu á fresti fyrir um helming fyrirtækja í eigu bankanna og að í öllum tilvikum hafi fengist undanþága frá FME. Haft er eftir Almari Guðmundssyni, frakvæmdastjóra FA, í Fréttablaðinu að fóormlega séð hafi mörg fyrirtækjanna verið í eigu bankanna mun lengur en eitt ár og að skilaboðin með því séu þau að bankinn sé látinn njóta vafans en ekki neytandinn eða samkeppnismarkaðurinn.