Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hotels, og formaður FHG, félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu hefur áhyggjur af því að aðgerðir stjórnvalda til að tryggja innviði íslenskrar ferðaþjónustu meðan á áhrifum heimsfaraldri kórónuveirunnar stendur muni ekki duga til.

Hefur hann áhyggjur af þeim skuldavanda sem muni blasa við ferðaþjónustufyrirtækjunum eftir svokallað frostatímabil sem tillögur eru um að þau geti farið í og því þurfi að bregðast einnig sérstaklega við vanda fjármagnseigenda.

Annars sé hætta á því að fjármálafyrirtæki muni, líkt og hafi gerst eftir hrun, leyst til sín allar eignir ferðaþjónustufyrirtækjanna, að því er Kristífer segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni: „ Hægt og hljótt “.

„Verði ekkert að gert stefnir í að á næsta ári verðum við í sömu stöðu og við vorum eftir hrun þar sem aftasti aðilinn í virðiskeðjunni leysti til sín eignirnar. Þá komu menn fljúgandi frá útlöndum og voru kallaðir hrægammar,“ segir Kristófer meðal annars í greininni og kemur með tillögur að lausnum.

„Gera þarf fjármálastofnunum kleift að koma til móts við leigusala, sem aftur gætu komið til móts við leigutaka, sem hafa verið án tekna mánuðum saman. Ef stjórnvöld beita sér ekki fyrir frystingu og niðurfellingu vaxta í 12-24 mánuði munu fjármálastofnanir hægt og hljótt eignast allar fjármagnsþungar eignir í ferðaþjónustunni.“