Stóru bankarnir þrír eru tvisvar sinnum stærri en hagkerfi Íslands og eru 20 sinnum stærri en stærsta félagið á markaði, sem er Marel. Þrátt fyrir það starfa þeir nær einungis á Íslandi og eru nær aðeins fjármagnaðir með innlánum, sem eru með ríkisábyrgð. Kom þetta fram í máli Péturs Einarsonar, forstjóra Straums, á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Fór fundurinn fram í Hörpu fyrir stundu.

Sagði Pétur að líta megi á bankana sem risaeðlur, en hættan sé sú að eðlan verði kjötæta. Efnahagur bankanna er um 3.000 milljarðar, en að sögn Péturs er arðsemi þeirra mjög lítil, líklega ekki meiri en 2-4% þegar endurmat á eignum er tekið út. Kostnaðarhlutfallið sé því mjög hátt og hættan sé sú að við þessar aðstæður fari bankarnir að nota efnahag sinn, m.ö.o. innlánin, til að fjármagna áhættusamari starfsemi. „Miðað við hálfsársuppgjör bankanna er kostnaður þeirra um 75 milljarðar króna og erfitt að búa til hagnað með svo mikinn kostnað. Þegar grunnstarfsemi bankanna er ekki lengur arðbær kallar það á meiri áhættutöku og að nota fjárfestingarbankastarfsemina til að vega upp lélega afkomu á viðskiptabankasviðinu. Það er gert með því að nota efnahag bankans í áhættumeiri starfsemi.“ Í dag er að mati Péturs raunveruleg hætta á því að bankarnir noti efnahag sinn til að drepa alla samkeppni.

Eðlilegt og heilbrigt fjármálakerfi einkennist, að sögn Péturs, af fjölbreytileika. Þar sé pláss fyrir viðskiptabanka, fjárfestingabanka, ráðgjafafyrirtæki, sparisjóði og verðbréfafyrirtæki. Núna sé staðan sú að mjög erfitt sé fyrir smærri aðila að keppa á markaðnum, m.a. vegna þess hve umfangsmiklir stóru bankarnir eru.