Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og nýráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, kaus með sérstökum bankaskatti sem skammtímaúrræði, en nú sé gert ráð fyrir honum í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Skatturinn skekki samkeppnisstöðu bankanna.

Samþykkti skattinn sem skammtímaúrræði

Katrín segir íslenskt skattaumhverfi gera upp á milli lánveitenda á hátt sem geti haft veruleg áhrif til lengri tíma.

„Við erum með þennan sérstaka bankaskatt, sem var settur til að fjármagna ákveðið verkefni, sem var leiðrétting lána. Ég var nú alþingismaður þegar hann var settur á og ég studdi hann, en þetta átti að vera skammtímaúrræði.

En núna í ríkisfjármálaáætluninni sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að halda þessari sértæku skattlagningu áfram, næstu fimm árin,“ segir Katrín sem bendir á að með þessu verði fjármögnunarkostnaður einstakra lánveitenda hærri sem skattinum nemi.

„Það er eitt að gera eitthvað til skamms tíma, sem menn vita að taki enda, en að vera með íslensku bankana í allt öðruvísi
umhverfi heldur en erlenda banka með langtímaskattlagningu sem og gagnvart innlendum aðilum eins og lífeyrissjóðunum, getur haft veruleg áhrif til lengri tíma, því þessi skattur er lagður á heildarskuldir.

Það getur þýtt til lengri tíma einhæfari efnahagsreikning bankanna og það hefur auðvitað áhrif á íslenskt samfélag.“ Katrín bendir á að á árinu 2015 skiluðu skattar sem lagðir eru á þessi fyrirtæki um 38 milljörðum króna.

„Þetta er sú upphæð sem kemur frá öllum okkar aðildarfyrirtækjum. Af þessari upphæð námu ótekjutengdir skattar um 19 milljörðum króna en eðli málsins samkvæmt eru þeir sérstaklega þungbærir þar sem að þeir sveiflast ekki með afkomu fjármálafyrirtækjanna,“ segir Katrín og leggur áherslu á að auknar álögur á fjármálafyrirtæki bitni á skilyrðum þeirra og getu til að vera bakhjarl fyrirtækja og heimila í landinu.

„Það er þetta samhengi sem við erum að biðja um að verði skoðað, en við höfum auðvitað fullan skilning á því að það þurfi að fjármagna ríkið og samfélagsleg verkefni.

Það er enginn að biðja um að vera undanskilinn því, það er bara verið að biðja um að fá að gera það með sambærilegum hætti og aðrir. Svo er það líka fjársýsluskatturinn sem er að leggjast ofan á tryggingagjaldið, á hvern launaðan starfsmann.

Það eru þessi atriði sem þarf að endurskoða, því þetta snýst ekki bara um að menn vilji græða meira, heldur snýst þetta um að allt umhverfið sé þannig byggt upp að hægt sé að bjóða Íslendingum sem best kjör.“

Nýtur ekki sannmælis

Katrín hefur áhyggjur af því að fjármálakerfið njóti ekki alltaf sannmælis í umræðunni hér á landi.

„Við megum ekki gleyma því að þótt margir líti á bankana sem stóran grimman úlf, þá gegna þeir ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum grundvallarhlutverki fyrir fjármögnun og dreifingu áhættu í efnahagslífinu.

Öflugur fjármálageiri sem býr við samkeppnisfær rekstrarskilyrði er einnig mikilvægur þáttur fyrir efnahagslegt sjálfstæði landsins,“ segir Katrín.

„Það eru fjármálafyrirtækin sem hjálpa fyrirtækjum að stækka og þannig veita fleirum atvinnu. Það eru fjármálafyrirtækin sem eru að vinna með unga fólkinu og fjölskyldunum við að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða eru að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu með stofnun fyrirtækja, þannig að það skiptir máli að umhverfi þeirra sé sambærilegt við það sem best gerist erlendis.“

Katrín segir enn fremur að íþyngjandi skattaumhverfi til frambúðar geti einnig haft mikil áhrif á virði bankanna.

„Að stórum hluta eru þetta eignir ríkisins og þetta getur til lengri tíma haft þau áhrif að virði þessara banka verði minna. Ef ríkið ætlar að eiga þessar eignir áfram þá getur þetta jafnframt haft áhrif á arðgreiðslur og tekjur af þeim,“ bendir Katrín á.

„Síðan ef menn ætla að selja þá, getur þetta haft áhrif á söluvirði þeirra, en þarna eru um eignir almennings að ræða, svo allt hefur þetta áhrif.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .