Samkomulag náðist á föstudag á milli stjórnvalda og skilanefnda gömlu bankanna, fyrir hönd kröfuhafa, um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Samkomulagið felur í sér að endurfjármögnun bankanna fari fram eigi síðar en 14. ágúst nk. og að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, í samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meirihluta í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.

Ennfremur náðist samkomulag við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verði að því að ljúka uppgjöri á milli gamla og nýja bankans. Það samkomulag er í eðli sínu ólíkt hinum tveimur þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, en þess má geta að vegna Icesave eru breska og hollenska ríkið stórir kröfuhafar í Landsbankanum.

Loks segir í tilkynningunni að samkomulagið feli í sér að töluvert minni kostnaður falli á skattgreiðendur en upphaflega hafi verið áætlað.

Allir samningarnir eru gerðir með fyrirvara um áskilið samráð við kröfuhafa og einnig með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins sem þarf að skera úr um hvort það sem gert er samrýmist lagakröfum um fjármögnun, styrk bankanna og stöðu eigenda á hverjum tíma.

Í tilkynningunni segir ennfremur að allar innstæður verði tryggðar eftir sem áður.