Viðskiptabankarnir hafa þegar afskrifað 67 milljarða króna vegna gengislánadómsins sem féll í febrúar, að því er kom fram á blaðamannafundi sem Fjármálaeftirlitið hélt í dag. Fleiri dómar eiga eftir að falla í vor og sumar og telur FME að endanleg afskriftarþörf bankanna gæti verið um 145 milljarðar króna ef dómarnir falla ekki þeim í vil, þ.e. að þeir muni þurfa að afskrifa 78 milljarða til viðbótar. Jafnvel þó að afskrifa þurfi svo mikið af útlánum verði bankarnir samt yfir 16% eiginfjárhlutfalli sem FME gerir kröfu um.

Sú krafa rennur reyndar út í ágúst í ár, enda var um tímabundna kröfu að ræða. Lögbundið lágmarkseiginfjárhlutfall er 8%. Hugsanlega verður þessi hærri krafa framlengd, en það er ekki ljóst sem stendur.

Segir vanskilahlutfallið óásættanlegt

Vanskil útlána íslensku bankanna nema 13,5%, þegar skoðuð eru einstök lán en ekki lántakendur, og er það hlutfall mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, segir þetta vanskilahlutfall óásættanlegt. Þegar norrænir bankar eru skoðaðir sést að þar er vanskilahlutfallið á bilinu 0,5%-4,6%. Þetta háa vanskilahlutfall er eitt af þeim áhættuþáttum sem Unnur segir að bankarnir þurfi að búa við. Aðrir áhættuþættir eru t.d. lagaleg óvissa í ljósi gengisdóms Hæstaréttar frá því í febrúar, aflétting gjaldeyrishafta og fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Þá er komin takmörkuð reynsla á gæði endurskipulagningar útlána. Endurksipulagningin tók kipp upp á við um mitt síðasta ár og vegna þess að lán teljast ekki vera í vanskilum fyrr en eftir þrjá mánuði þá er ekki ennþá liðinn nægur tími til að sjá hvort endurskipulagningarnar haldi.

Arðsemi eigna íslensku viðskiptabankanna hefur verið mun meiri en margra erlendra banka frá hruni sem skýrist m.a. af stórum einskiptisliðum. Þá er vaxtamunur íslensku bankanna töluvert hærri en í nágrannalöndunum, m.a. vegna þess að áhættudreifing þeirra er verri og að verðbólga og vaxtastig hefur verið hærra hér en annars staðar.