Undanfarin ár hafa verðtryggðar eignir stóru bankanna þriggja aukist talsvert hraðar en verðtryggðar skuldir þeirra. Munurinn er mestur hjá Landsbankanum, eða sem samsvarar um tveimur þriðju hluta af eigin fé bankans. Síðustu tvö ár hefur munurinn á verðtryggðum eignum og skuldum, sem einnig er kallaður verðtryggingarjöfnuður, einnig aukist töluvert hjá Arion banka og Íslandsbanka.

Í lok síðasta ársfjórðungs var verðtryggingarjöfnuður stóru bankanna þriggja jákvæður um samtals 285 milljarða króna. Þetta þýðir að 1% aukning verðbólgu hefur sjálfkrafa jákvæð áhrif á afkomu bankanna sem samsvarar tæpum þremur milljörðum króna.

Engar reglur um jöfnuðinn

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu er ljóst að þeim mun meiri sem verðtryggingarjöfnuður bankanna er, þeim mun meiri hagsmuni hafa þeir af hárri verðbólgu upp að því marki sem hún skerðir ekki greiðslugetu lántaka. Bankarnir hafi mikil tækifæri til að hafa áhrif á verðbólgu með útlánastefnu sinni hverju sinni.

Engar reglur eru um verðtryggingarjöfnuð banka, en óformleg skoðanaskipti hafa átt sér stað um málið innan stjórnkerfisins. Seðlabankinn setur reglur um gjaldeyrisjöfnuð banka og er því hugsanlegt að hann gæti sett svipaðar reglur varðandi verðtryggingarjöfnuð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .