Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings, sem meðal annars metur lánshæfi íslensku bankanna og ríkissjóðs segir í nýrri skýrslu að íslenska bankakerfið hafi gengið í gegnum róttækar breytingar undanfarin þrjú ár. Það er mat Alexandre Birry sérfræðings hjá Fitch Ratings að bankarnir hafi aðlagast breyttu alþjóðlegu umhverfi óvenju hratt og sýnt fram á getu til að takast á við ný verkefni og aukna áhættu. Þetta er að mati Birry afar jákvæð þróun. "Í kjölfarið eru bankarnir nú minna háðir innlendu efnahagsumhverfi en áður" segir í skýrslunni. Fitch Ratings bendir þó á að ný verkefni sem eru fylgifiskar aðlögunar að alþjóðlegum mörkuðum þarfnist meiri athygli og því þurfa bankarnir að huga að áhættustjórnun og samþættingu þeirra erlendu rekstrareininga sem keyptar hafi verið undanfarið í auknum mæli" segir í skýrslunni.

Fitch Ratings hefur enn sem áður áhyggjur af krosseignarhaldi íslenskra fyrirtækja en segja þó að jákvæðar breytingar í þeim efnum hafi gert vart við sig. Í heildina litið er skýrsla Fitch á jákvæðum nótum, sem er til marks um þann viðsnúning sem hefur orðið á umfjöllun um bankanna undanfarið.