Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka nam 23 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi miðaða við 11 milljarða hagnað á sama tímabili fyrir ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam samanlagður hagnaður bankanna nam 60 milljörðum króna miðað við 10 milljarða hagnað fyrstu níu mánuðina 2020.

Sé horft til síðustu tólf mánaða hefur samanlagður hagnaður bankanna ekki verið hærri frá árinu 2016.

Arion banki hagniðst um 22,1 milljarð fyrstu þrjá fjórðunga ársins, Landsbankinn um 21,6 milljarða og Íslandsbanki um 16,6 milljarða króna.

Arðsemi bankanna var yfir markmiðum þeirra en arðsemi eigin fjár Íslandsbanka nam 15,7% en 15,2% hjá Arion banka og 11% hjá Landsbankanum.

Bætt afkoma bankanna skýrist milli ára skýrist meðal annars af því að útlánatöp vegna COVID -kreppunnar hafa reynst minni en búist var við á síðasta ári. Því hafa bókfærð útlánatöp síðast árs verið bakfærð að hluta. Þá njóta bankarnir einnig góðs af uppgangi á fjármálamarkaði, til að mynda vegna hækkandi hlutabréfaverðs og auknum áhuga á verðbréfafjárfestingum. Auk þess hefur verið töluverður útlánavöxtur í húsnæðislánum til einstaklinga.