Flest bendir til að jafnvægi sé að nást í vöruskiptum landsmanna en spár um minnkandi einkaneyslu samfara vaxandi útflutningi áls ættu að renna styrkari stoðum undir jöfnuðinn á komandi mánuðum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá IFS Greiningu sem kynnt var í dag en í skýrslunni kemur fram að tilgangur hennar sé að skýra aðdraganda og ástæður snöggs gengisfalls og væntingar um framtíð.

Þar segir að þegar litið er fram á veg ættu álversframkvæmdir í Helguvík að skapa væntingar um aukið innflæði erlends fjármagns sem ættu að öðru óbreyttu að hafa jákvæð áhrif á gengi krónu.

Þá verði fjárfestingar vegna Helguvíkur líklegast um 60 til 70 milljarðar króna.

„Einnig hefur verulega dregið úr flökti á gjaldeyrismarkaði,“ segir í skýrslunni.

„Á undanförnum árum hefur mikið gengisflökt fylgt snöggri veikingu á gengi krónu. Samdráttur í flökti gæti verið vísbending um að meira jafnvægi sé komið á gjaldeyrismarkað.“

Væntingar á undan flæði

„Á skilvirkum markaði endurspeglast væntingar um framtíð í verði,“ segir í skýrslunni.

„Þannig hafa fyrirsjáanlegir atburðir áhrif á verð áður en að þeim kemur. Árið 2007 voru fyrirsjáanlegir stórir gjalddagar krónubréfa í lok árs 2008 og byrjun árs 2009. Það ætti því ekki að koma á óvart að bankarnir sönkuðu að sér gjaldeyri á seinasta ári með framvirkum kaupum á gjaldeyri til að geta staðið við erlendar skuldbindingar vegna krónubréfaútgáfu.“

Skýrsluhöfundar segja að við gerð framvirks samnings eigi ekkert flæði gjaldeyris sér stað og útskýrir það af hverju krónan veiktist ekki á síðasta ári þrátt fyrir að bankarnir „hömstruðu gjaldeyri,“ eins og það er orðað í skýrslunni.

„Með vaxandi eign bankanna í framvirkum samningum á gjaldeyri jókst enn frekar það ójafnvægi sem til staðar var á gjaldeyrismarkaði.“

Þá kemur fram að eftir mikla uppbyggingu framvirkrar gjaldeyrisstöðu bankanna féll framvirka staðan svo í vor. Á sama  tíma hafi svokölluð spotstaða aukist mikið þ.e. staða bankanna í gjaldeyri án framvirkra samninga.

Einnig kemur fram í skýrslunni að frá því í febrúar fram til júlí batnaði gjaldeyrisstaða bankana um 3 milljarða evra.

„Veiking krónunnar í vor kom því er bankarnir lokuðu framvirkum samningum til að geta staðið við þær erlendu skuldbindingar sem höfðu hlaðist upp,“ segir í skýrslunni.

„Framvirk kaup bankanna á gjaldeyri upp á 3 milljarða evra jafngildir því að 360 milljarðar króna hafi flætt út úr landinu er bankarnir lokuðu samningum í vor. Á sama tíma og bankarnir keyptu gjaldeyri virðist sem að skrúfað hafi verið fyrir framvirk kaup á íslenskum krónum sem jók enn frekar hraða gengisfallsins.“

Skýrsluhöfundar segja bankana hafa þegar keypt gjaldeyri til að standa við skuldbindingar sínar vegna krónubréfa en líklegt sé að framvirkir samningar bankanna muni ganga á móti skuldbindingum vegna útgáfunnar.

„Tilvonandi gjalddagar krónubréfa munu því væntanlega hafa lítil áhrif á gengi krónunnar. Reikna má með að framvirk staða bankanna muni smám saman minnka í kjölfar gjalddaga krónubréfa og lokun framvirka samninga. Svigrúm til verulegrar styrkingar krónu verður líklega ekki fyrr en á næsta ári er búið verður að vinda ofan af krónubréfastöðunni og þegar bankarnir verða búnir að greiða upp erlendar kröfur að mestu.“