Vaxtagjöld ríkisins vegna stofnfjármögnunar Landsbanka, Arion banka og Íslandsbanka eru áætluð 6,5 milljarðar króna á árinu 2011. Langstærsti hluti þeirrar upphæðar er vegna kostnaðar við fjármögnun Landsbankans, eða 4,2 milljarðar króna á ári. Þetta kemur fram í svörum fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um vaxtagjaldakostnað ríkisins vegna fjármögnunar bankanna. Ljóst er að vaxtagjaldakostnaður ríkisins hefur að minnsta kosti verið sambærilegur árin á undan.

Kostnaðurinn lækkaði

Eftir hrun Kaupþings, Glitnis og Landsbanka í október 2008 endurreisti íslenska ríkið þrjá nýja banka á grunni hinna föllnu. Upphaflega stóð til að ríkið myndi leggja þeim til samtals 385 milljarða króna í nýtt hlutafé. Ríkissjóður gaf út skuldabréf til að fjármagna kaupin á hlutabréfunum. Þegar á leið endurskipulagningu bankanna þriggja, sem þá höfðu fengið nöfnin Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki, breyttust áherslur og kröfuhafar samþykktu að taka yfir stóran eignarhluta í Arion banka og Íslandsbanka. Landsbankinn er þó enn að mestu í höndum ríkisins sem á einnig 5% hlut í Íslandsbanka og 13% hlut í Arion banka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.