Viðskiptavinir Arion banka og Landsbankans geta frá og með deginum í dag notað Apple Pay til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu. Greina bankarnir frá þessu í fréttatilkynningum.

Arion banki tekur upp Apple Pay

Apple Pay er mjög einfalt og öruggt í notkun. Þannig  geta viðskiptavinir nú greitt með iPhone símum, Apple Watch úrum og Mac tölvum á fljótlegan og öruggan hátt í verslunum, á vefsíðum, í snjallforritum, auk fjölda annarra staða hér á landi og víðs vegar um heim. Viðskiptavinir, sem nýta sér kosti Apple Pay, fá áfram öll þau fríðindi og tilboð sem fylgja kredit- og debetkortum Arion banka og enginn viðbótarkostnaður fylgir því að greiða með Apple Pay.

Þegar Apple Pay er notað til að greiða fyrir vörur og þjónustu í verslunum með iPhone síma eða Apple Watch úri þá fer greiðslan fram með einföldum og snertilausum hætti. Þegar vara eða þjónusta er keypt í gegnum snjallforrit eða á vefnum, er einn af kostum Apple Pay að ekki þarf lengur að fylla út greiðsluupplýsingar eða endurtekið að fylla út upplýsingar um kaupanda og hvert senda á vöru.

Apple Pay er auðvelt í uppsetningu og það er einfalt að tengja greiðslukort við Apple Pay í gegnum Arion appið. Viðskiptavinir velja einfaldlega það kort í Arion appinu sem þeir vilja tengja við Apple Pay og smella síðan á „Bæta korti í Apple Wallet". Nauðsynlegt er að vera með nýjustu uppfærslu af Arion appinu.

Öryggi og persónuvernd eru í fyrirrúmi. Þegar greitt er með Apple Pay þarf notandi að auðkenna sig með fingrafara- eða andlitsskanna iPhone símans áður en greiðsla er framkvæmd. Þegar kredit- eða debetkort er notað með Apple Pay, eru kortanúmer hvorki geymd í tækinu né á vefþjónum Apple. Þess í stað er sérstökum sýndarnúmerum úthlutað, þau dulkóðuð og geymd með öruggum hætti í því tæki sem notað er, hvort sem það er iPhone sími, Apple Watch úr eða Mac tölva.

,,Það er ánægjulegt að geta nú boðið viðskiptavinum Arion banka að greiða fyrir vörur og þjónustu í gegnum Apple Pay. Bankaþjónusta er að breytast mikið og hratt og við höfum verið í fararbroddi um tækninýjungar. Apple Pay er einfalt í notkun og smellpassar við þá stefnu okkar að bjóða upp á framsækna og þægilega bankaþjónustu hvar og hvenær sem er," er haft eftir Stefáni Péturssyni, starfandi bankastjóri Arion banka í tilkynningunni.

Landsbankinn tekur einnig upp Apple Pay

Korthafar Landsbankans geta nú einnig tengt kort sín við Apple Pay sem er einföld, örugg og traust greiðsluleið. Með Apple Pay á iPhone, Apple Watch, iPad og Mac geta viðskiptavinir  greitt með þægilegum og fljótlegum hætti í verslunum, í öppum og á netinu.

Apple Pay er einfalt í uppsetningu og viðskiptavinir njóta áfram allra fríðinda og trygginga sem tengjast greiðslukortunum þeirra.

Þegar greiðslukort er tengt við Apple Pay, vistast kortanúmerið hvorki í tækið né á netþjóna Apple. Í staðinn er stofnað sýndarnúmer (token) fyrir kortið sem er vistað með öruggum hætti í tækinu. Hver greiðsla er síðan heimiluð með einkvæmu og breytilegu öryggisnúmeri. Við framkvæmd greiðslu auðkenna viðskiptavinir sig síðan á einfaldan hátt með andlitsgreiningu (e. Face ID), fingrafari (e. Touch ID) eða aðgangsnúmeri tækisins.