Viðskiptabankarnir stóru, þ.e. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa leyst til sín samtals 2.447 íbúðir frá því á nýársdag árið 2009 og fram til loka febrúar á þessu ári. Landsbankinn hefur tekið yfir rúman helming íbúðanna eða 54% heildarfjöldans. Fasteignir Landsbankans voru 1.325 samanborið við 630 sem Íslandsbanki tók yfir á sama tíma. Þá tók Arion banki yfir 492 íbúðir á árunum 2009 til 2012. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu margar íbúðir bankarnir hafa selt frá sér á sama tíma.

Það var netmiðillinn Spyr.is sem spurði bankana að því hvað þeir hafi leyst til sín margar íbúðir. Vb.is hefur fjallað um svör bankanna eftir því sem þau hafa borist Spyr.is. Íbúðalánasjóður og Drómi, félagið sem var stofnað utan um kröfur SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, voru spurð sömu spurninga. Svör frá fyrirtækjunum hafa hins vegar ekki borist. Hins vegar kemur fram í síðustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að í lok janúar hafi sjóðurinn átt 2.261 fasteign.

Fram kemur í svörum frá bönkunum að þeir hafi tekið yfir 372 íbúðir árið 2009 en á milli 600 til rúmlega 700 á ári á árunum 2010 til 2012. Árið 2010 leystu bankarnir þrír yfir 644 íbúðir, 721 árið 2011 og 644 í fyrra.