Aðalútskýring hagfræðiprófessoranna dr. Friðriks Más Baldurssonar og dr. Richards Portes á háu skuldatryggingaálagi íslensku bankanna er áhættuálag. Prófessorarnir segja, í skýrslu sem þeir gerðu fyrir Viðskiptaráð og kynnt var í London í síðustu viku, að óróinn í febrúar 2006 (smákreppan) hefði gert þá mun næmari fyrir áhættu, "[þ]rátt fyrir vel heppnaðar tilraunir þeirra til að bæta þá þætti sem þeir voru gagnrýndir fyrir á þeim tíma." Um það leyti birtust greiningar erlendra greinenda á bönkunum og íslensku efnahagslífi, þar sem varað var við skuldsetningu, áhættu og mögulegri, harðri lendingu. Í kjölfarið hækkaði álag á skuldatryggingum bankanna, svokallað "credit default spread" (CDO) og náði álag Landsbankans hæst um 100 stigum. Í júní virtist sem álagið hefði aftur náð jafnvægi, vel undir 40 stigum hjá öllum bönkunum, en í júlílok tók það stórt stökk upp á við þegar lausafjárþurrðar fór að gæta og fjármagn varð dýrara á markaði vegna bandarískra undirmálslána. Að undanförnu hefur álag á tryggingar Kaupþings verið í hæstu hæðum, allt að 360 punktar, þótt álag Glitnis og Landsbanka hafi verið mun lægra.´

Lesið meira um stöðu íslensku bankanna í úttekt Viðskiptablaðsins.