Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,57% það sem af er degi og er 5.487,36 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Markaðurinn byrjaði morguninn á því að hækka og úrvalsvísitalan fór hæst í 5.679,80 stig. Þá voru viðskiptabankarnir þrír, Straumur-Burðarás og Actavis Group þau félög sem hækkað höfðu hvað mest.

Kaupþing banki, Straumur-Burðarás og Landsbankinn skipa nú sæti með þeim fyrirtækjum sem lækkað hafa.

Hækkanir

Bakkavör Group hefur hækkað um 2,24% það sem af er degi og Actavis Group hefur hækkað um 1,16%, félagið mun birta uppgjör sitt þann 11. maí en greiningardeild Glitnis birti þann 27. apríl nýtt verðmat á félagið og metur það á 226,7 milljarða sem jafngildir genginu 68,1 krónur á hlut. Þegar þetta er skrifað er gengið 61,40 króna á hlut.

Atlantic Petroleum hefur hækkað um 0,63%, Glitnir hefur hækkað um 0,59% en bankinn birti fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt í dag og hagnaðurinn nam 11,2 milljörðum króna fyrirskatta á tímabilinu samanborið við 3,6 milljarða á sama tíma fyrir ári og Dagsbrún hefur hækkað um 0,53%

Lækkanir

Þá að fyrirtækjum sem lækkað hafa.

Landsbankinn hefur lækkað um 2,27% en hann birti einnig fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt í dag og nam hagnaður bankans 17,3 milljörðum fyrir skatta samanborið við 7,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2005.

Kaupþing banki hefur lækkað um 1,45%, bankinn birti ársfjórðungsuppgjör sitt þann 27. apríl og jókst hagnaður bankans um 69,5% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við tímabilið í fyrra og er það mesti hagnaður í sögu bankans.

FL Group hefur lækkað um 1,03%, Flaga Group hefur lækkað um 0,80% og Straumur-Burðarás hefur lækkað um 0,59%.