Opnunartími útibúa Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans mun skerðast víða um land í dag vegna óveðurs sem brátt mun skella yfir landið. Greina bankarnir frá þessu á heimasíðum sínum.

Útibúum Íslandsbanka verður lokað kl. 14 og fyrr ef þörf krefur á landsbyggðinni. Þá verður ráðgjafaveri bankans sömuleiðis lokað frá kl. 14.

Útibú og afgreiðslur Landsbankans á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og annars staðar þar sem veður verður slæmt munu ýmist vera lokuð í dag eða loka snemma, samkvæmt ákvörðun útibússtjóra á hverjum stað. Þjónustuver og útibú á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum munu loka kl. 13.

Opnunartími Arion banka útibúa mun einnig skerðast. Útibú bankans á Blönduósi verður lokað í dag vegna veðurs og útibúin á Siglufirði og Sauðárkróki verða opin til kl. 11. Útibú á Vesturlandi loka kl. 12 og öllum öðrum útibúum ásamt þjónustuveri verður lokað kl. 14.

Allir bankarnir benda á að viðskiptavinir geti nýtt sér netbanka eða smáforrit til að framkvæma helstu aðgerðir.