Samkvæmt mati Samkeppniseftirlitsins dró úr ráðandi áhrifum bankanna í stærri fyrirtækjum´a árinu 2011. Þannig telur eftirlitið að bankarnir hafi verið í ráðandi stöðu í 27% stærri fyrirtækja í ársbyrjun 2012. Í ársbyrjun 2011 var þetta hlutfall talið vera 46%.

„Hér er um verulega breytingu að ræða sem felst í því að um 20 fyrirtæki voru seld eða endurskipulögð á árinu með þeim hætti að telja verður að kröfuhafar hafi ekki lengur þau ítök í rekstri fyrirtækjanna sem þeir áður höfðu," segir í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um endurreisn fyrirtækja 2012.

„Hér ber þó að hafa í huga að skuldsetning margra fyrirtækja er afar mikil þannig að þessi staða gæti breyst skjótt til hins verra á ný ef efnahagsþróun verður mótdræg eða efnahagsbati á næstu árum umtalsvert hægari en reiknað er með," segir jafnframt í samandregnum niðurstöðu skýrslunnar.

Framhald á skýrslu frá 2011

Skýrslan nú er framhald á skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út í júní 2011 og hét Samkeppni eftir hrun. Skýrslan byggðist á rannsókn eftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Þau standa undir um helmingi af allri veltu íslenskra fyrirtækja.