Samanlagður hagnaður MP banka, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka árið 2014 nam 81,4 milljörðum króna á síðasta ári en þeir birtu allir uppgjör fjórða ársfjórðungs í vikunni.

Í tilfelli Arion banka og Íslandsbanka höfðu óreglulegir liðir þó nokkur áhrif á afkomu síðasta árs. Hjá Arion banka var það einna helst skráning HB Granda á markað. Hagnaður af aflagðri starfsemi bankans nam 6,8 milljörðum króna á árinu og er að mestum hluta kominn til af sölu eignarhluta bankans í útgerðarfélaginu.

Hjá Íslandsbanka var það helst lækkun á virðisbreytingum á útlánasafnibankans og sala á eignum í óskyldum rekstri sem hefur staðið yfir síðustu ár.

Mikill viðsnúningur var á rekstri MP banka á árinu sem var að líða en 335 milljóna króna hagnaður var á starfsemi bankans eftir skatta samanborið við 477 milljóna króna tap árið 2013. Sem stendur er MP banki í sameiningarviðræðum við Straum og því mikilla tíðinda að vænta hjá honum á þessu ári.

Landsbankinn hagnaðist um 29,7 milljarða króna árið 2014 en í tilkynningu um uppgjörið sagði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að á aðalfundi verði lagt til að greiða hluthöfum arð að fjárhæð tæplega 24 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur bankans vegna síðustu þriggja rekstrarára muni því nema um 53,5 milljörðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .