Viðskiptabankarnir þrír eru taldir nýta stöðu sína sem aðallánveitendur yfirskuldsettra fyrirtækja í fjárhagslegri endurskipulagningu til að tryggja fyrirtækjaráðgjöfum sínum verkefni. Verkefnin geta falist í skuldabréfaútboðum, sölu á því í heild eða að hluta eða skráningu þess á markað. Þóknanir í fyrirtækjaráðgjöf geta verið háar. Morgunblaðið greinir frá því í dag, að yfirmenn nokkurra minni fjármálafyrirtækja séu ósáttir við þetta og segja viðskiptabankana með óeðlilega stöðu gagnvart viðskiptavinum sínum, sem eigi ekki margra kosta völ.

Blaðið segir Samkeppniseftirlitið skoða hvort ítök viðskiptabankanna í skuldsettum fyrirtækjum hafi leitt til skekktrar samkeppnisstöðu í fyrirtækjaráðgjöf. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri eftirlitsins, segir í samtali við blaðið vonast til að skýrslu um málið verði lokið í seinni hluta mánaðarins.