Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fengið viðskiptabankana þrjá, Glitni, Kaupþing og Landsbankann, og nokkra lífeyrissjóði til liðs við sig og verður nýjum fjárfestingasjóði væntanlega hleypt af stokkunum með haustinu. Að sögn Jóns Steindórs Valdimarssonar, stjórnarformanns Nýsköpunarsjóðs, er stefnt að því að hver aðili um sig leggi til 1,5 milljarða króna og fjárfestingargeta sjóðsins verði þannig um 4,5 til 5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Framlag ríkisins mun greiðast á næstu þremur árum. "Þetta er ekki frágengið en við teljum að það séu meiri líkur en minni að af þessu verði. Við erum bjartsýnir á það," sagði Jón Steindór.

Sem kunnugt er var ákveðið að verja 2,5 milljörðum króna af "símapeningunum" svokölluðu til nýsköpunar. Nýsköpunarsjóður hefur verið efldur með auknum fjármunum, milljarði árið 2006, og hann fékk fyrirheit um 1,5 milljarða til að leggja í samlagssjóð með öðrum fjárfestum á næstu árum. "Að því verkefni hefur verið unnið og má nú loks segja að öll skilyrði séu fyrir hendi að þetta takist. Nauðsynlegur lagarammi er kominn fyrir rekstur samlagshlutafélaga á Íslandi er hafa fjárfestingar að viðfangsefni. Lagaramminn er þó ekki með öllu gallalaus og þarfnast lagfæringa. Þær lúta að því að reglur hlutafélaga um útgáfu og niðurskrift hlutafjár henta ekki þessari starfsemi og valda óþarfa fyrirhöfn og kostnaði," sagði Jón Steindór. Seinna framlagið var skilyrt því að stjórn Nýsköpunarsjóðs tækist að fá fjárfesta til liðs við sig.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.