Bankarnir þrír sem skráðir eru í Kauphöllina hækkuðu allir um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Gengi Kviku banka hækkaði mest af öllum Kauphallarfélögunum eða um 2,2% en 2,3 milljarðar af 5,5 milljarða veltu á aðalmarkaðnum í dag var með bréf Kviku. Hlutabréfaverð Kviku endaði daginn í 28,2 krónum sem er hæsta dagslokagengi bankans frá skráningu.

Hlutabréf Íslandsbanka náðu einnig nýjum hæðum í 128 krónum á hlut eftir 2,1% hækkun í dag. Gengi Íslandsbanka hefur nú hækkað um 62% frá útboði bankans fyrir skráningu í Kauphöllina í júní. Arion banki hækkaði einnig um 1,1% í 813 milljóna veltu í dag.

Gengi útgerðarfélaganna Síldarvinnslunnar og Brims náði einnig methæðum í dag. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar er nú komið í 97 krónur eftir 2,1% hækkun í dag en til samanburðar var gengið í frumútboði félagsins í maí 58 krónur fyrir almenna fjárfesta og 60 krónur fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna. Gengi Síldarvinnslunnar er því 62%-67% en útboðsgengið. Hlutabréfaverð Brims náði 77,5 krónum á hlut eftir 1,3% hækkun í dag og hefur alls hækkað um 58% í ár.

Eimskip lækkaði mest meðal félaga á aðalmarkaðnum eða um 1,2%. Gengi flutningafélagsins stendur nú í 478 krónum á hlut og hefur lækkað um 6,3% frá því að það náði sínu hæstu hæðum í 510 krónum fyrir tveimur vikum síðan. Eimskip hefur engu að síður hækkað um 135% á einu ári.

Gengi Símans lækkaði einnig um 0,8% í 179 milljóna veltu í dag og stendur í 11,5 krónum á hlut. Fjarskiptafélagið hefur nú lækkað um 7,3% síðastliðinn mánuð eða frá því að gengi félagsins náði 12,4 krónum eftir að tilkynnt var um einkaviðræður um sölu á dótturfélaginu Mílu til sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian.