Bankarnir þrír í Kauphöllinni, Íslandsbanki, Arion og Kvika, hafa hækkað verulega í fyrstu viðskiptum dagsins og hlutabréfagengi allra þriggja eru komin í methæðir. Veltan með hlutabréf bankanna nemur um 900 milljónum króna á fyrsta klukkutímanum frá opnun Kauphallarinnar í morgun.

Hlutabréfagengi Íslandsbanka hefur hækkað um 4,9% í fyrstu viðskiptum dagsins og er nú komið í 108 krónur á hlut, sem er um 37% yfir útboðsgenginu í hlutafjárútboði bankans sem fór fram fyrr í mánuðinum.

Gengi Arion hefur sömuleiðis hækkað um 2,3% í morgun og stendur nú í 154 krónum á hlut. Arion hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og hefur hækkað um 62% frá áramótum og þrefaldast frá því í mars á síðasta ári. Hlutabréfaverð Arion hefur aldrei verið hærra frá skráningu bankans í Kauphöllina í júní 2018.

Kvika banki hefur einnig hækkað um 3% í dag og stendur gengi bankans nú í 23,45 krónum á hlut, rétt yfir hæsta dagslokagengi sitt frá skráningu á hlutabréfamarkað í mars 2018. Kvika hefur hækkað um 229% frá byrjun kórónuveirufaraldursins en gengið byrjaði að hækka verulega eftir að fréttir bárust af sameiningu Kviku og TM sem kláraðist formlega í byrjun apríl síðastliðnum.