Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, vonast til þess að það fari að fjölga skráningum á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi, en Heimavellir hafa til að mynda verið að stefna á skráningu á árinu.

„Ég hef ekki heyrt neitt annað, þannig að ég geri mér vonir um að það standist og svo vonar maður auðvitað að það fari að styttast í frekari skráningar,“ segir Páll en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um virðist First North markaður kauphallarinnar vera að vakna til lífsins en bæði hefur félagið Klappar grænar lausnir lýst yfir að þeir hyggist skrá sig sem og að Kvika banki skoðar skráningu.

Vannýttur markaður

Páll er að vonum ánægður með aukinn áhuga fyrirtækja á First North-markaðnum. „Við höfum talið að þessi markaður væri algerlega vannýttur hér, þannig að þessar tilkynningar eru afskaplega góð tíðindi og ber vott um að áhuginn sé að vakna sem við höfum talið allar forsendur vera fyrir,“ segir Páll sem segir skráninguna veita fyrirtækjum ákveðinn sýnileika.

„Ég myndi álíta hana vera traustsyfirlýsingu stjórnenda á félagi og að menn hafi trú á framtíð fyrirtækisins. Að innviðir þess séu af því tagi að það treysti sér til þess að uppfylla skilyrði þess að vera á markaði og veita upplýsingar til hans.“

Allar formkröfur minni

Páll segir First North bjóða upp á einfaldari möguleika til að koma inn á markaðinn en á Aðalmarkað. „Með breytingu sem fjármálaráðuneytið gerði á reglugerð haustið 2015 þá er orðið mun einfaldara fyrir fyrirtæki að fara í smærri útboð en var áður, allar formkröfur eru orðnar minni,“ segir Páll.

„Þessi markaður hentar fyrirtækjum sem eru komin með ákveðinn fjölda hluthafa og vilja þjónusta þá, en þarna er sköpuð ákveðin umgjörð sem tryggir jafnræði. Það er umtalsverður munur á kröfunum milli markaðanna, til dæmis á yfirtökuskylda ekki við á First North. Einungis eru gerðar kröfur um hálfsársuppgjör og allar lýsingar sem þarf að senda inn eru einfaldari.“

Æskilegra eignarhald í gegnum markaðinn

Spurður út í hvort það kæmi til greina að einkavæðing viðskiptabankanna færi í gegnum Kauphöllina segir Páll þá leið hafa margs konar kosti. „Auðvitað kæmi það bönkunum í annað og að mínu viti æskilegra eignarhald en þeir séu í höndum ríkisins til lengri tíma litið. Það myndi jafnframt laða mun fleiri erlenda fjárfesta að markaðnum.“

Páll sér fyrir sér að hægt væri að selja bankana í nokkrum skrefum í gegnum markaðinn. „Það felur í sér ákveðna áhættustjórnun fyrir ríkið. Menn gætu til að mynda byrjað með því að selja þriðjung eða rúmlega það í einum banka, tekið annað skref fljótlega eftir að það hafi myndast verð á bankanum, og svo klárað ferlið innan fárra ára.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .