Spár greiningardeilda bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, um hækkun neysluverðsvísitölunnar í nóvember liggur á bilinu 0,3-0,4%. Samkvæmt því verður 12 mánaða verðbólga 4,8-4,9%.

Kaupþing spáir 0,3% hækkun

Greiningardeild Kaupþings hefur endurskoðað verðbólguspá sína til hækkunar og spáir nú 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember í stað 0,2% áður. Í umfjöllun greiningardeildar Kaupþings segir að endurskoðun frá fyrri spá megi rekja til hækkunar eldsneytisverðs í lok október. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 4,8% en hún var 4,5% í október.

Hækkun vegna fasteigna- og eldsneytisverðs

Hækkunin í mánuðinum helgast af hækkandi fasteigna- og eldsneytisverði en verðlækkun á leikföngum hefur áhrif til lækkunar ásamt því sem gert er ráð fyrir lítilsháttar verðlækkun á fatnaði og skóm, að því er segir í frétt frá greiningardeild Kaupþings.

Glitnir spáir meiri hækkun

Spá Kaupþings er samhljóða spá Landsbankans en greiningardeild Glitnis spáir heldur meiri hækkun verðlags í nóvember, eða 0,4%. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir nóvember á mánudagsmorgun.