Allar greiningardeildir íslensku bankanna spá því að Seðlabanki Íslands muni hækka stýrivexti um 50 punkta í byrjun dags á morgun kl. 9.00. Þar með verða stýrivextir orðnir 11,25% gangi spá bankanna eftir. Raunar virðast uppi efasemdir um að 50 pounkta hækkun sé nægjanleg.

Greiningardeild Glitnis útilokar ekki að Seðlabankinn muni jafnvel ganga enn lengra: "Ekki er hægt að útiloka að bankinn hækki vexti sína meira eða um 0,75 prósentustig en við teljum það mun ólíklegra en 0,5 prósentustiga hækkun. Vaxtahækkun bankans mun styðja við gengi krónunnar og stuðla að minni verðbólgu en ella hefði orðið," segir greiningardeildin: "Samhliða hækkun stýrivaxta mun bankinn sennilega reyna að efla trú markaðsaðila á getu bankans til að takast á við óstöðugleika í fjármálakerfinu. Gengi krónunnar gæti hækkað til skamms tíma í kjölfar vaxtaákvörðunar bankans en flest bendir þó til frekari lækkunar gengis krónunnar þegar horft er til ársloka."

Greiningardeild Kaupþings banka segir að með hækkun á morgun muni vaxtamunur við útlönd hækka enn á ný "eftir að hafa dregist saman í kjölfar 25 punkta hækkunar stýrivaxta í Bandaríkjunum nú í gær og 25 punkta hækkunar stýrivaxta Seðlabanka Evrópu á síðasta vaxtaákvörðunarfundi, þann 2. mars síðastliðinn. Hins vegar er ljóst að ef Seðlabanki Bandaríkjanna og Evrópu hækka aftur stýrivexti í maí næstkomandi eins og væntingar standa til mun það draga úr vaxtamuninum á nýjan leik. Í ljósi vaxtahækkana í stærstu viðskiptalöndum Íslands og væntinga um frekari vaxtahækkanir er því ljóst að Seðlabanki Íslands þarf að hækka vexti meira en ella til að viðhalda eða auka vaxtamun við útlönd."

Greiningardeild Landsbankans telur að 50 punkta vaxtahækkun sé hugsanlega ekki nægjanleg: "Reyndar teljum við 75-100 punkta vaxtahækkun vera það sem til þarf ef draga á úr verðbólguþrýstingi til skamms tíma. Slík hækkun myndi styðja við gengi krónunnar og auka þar með líkur á skaplegri aðlögun á gjaldeyrismarkaði. 75-100 punkta hækkun myndi einnig auka líkur á að verðhækkunum á fasteignamarkaði linni. Þannig sýnir bankinn staðfestu gagnvart verðbólgumarkmiðinu og trúverðugleiki hans eykst."